Mannauður

 Helgun (e. engagement) starfsfólks samkvæmt svörun starfsfólks á kjarnaspurningum Gallup er einn af fimm lykilmælikvörðum TM og hefur félagið sett sér markmið um að helgun mælist 4,2 eða hærri. 

Vinnustaðagreining 2016

Á árinu 2015 mældist helgun starfsfólks TM 4,03 í vinnustaðargreiningu sem framkvæmd var í mars sama ár. Í ljósi skipulagsbreytinga haustið 2015 sem og niðurstaðna vinnustaðargreiningar 2015 var ákveðið að leggja vinnustaðargreiningu aftur fyrir starfsfólk TM í mars 2016.

Niðurstöður þeirrar greiningar voru um margt mjög góðar. Mikilvægir þættir eins og endurgjöf, tækifæri og hvatning til starfsþróunar og mikilvægi starfs hækkuðu marktækt (≥ 0,2) milli greininga. Þeir þættir sem lækkuðu milli greininga (mældust lægri 2016 en 2015) voru stolt og upplifun starfsfólks af því að góð þjónusta sé forgangsverkefni hjá TM. Lækkun á þeim liðum var þó undir 0,2 og mælist því ekki marktæk. Helgun starfsfólks í vinnustaðargreiningunni 2016 mældist 4,26, og félagið náði því markmiðum sínum á þeim mælikvarða.

Þróun helgunar hjá TM 2006–2016

 

Helgun starfsmanna

Í vinnustaðargreiningu 2016 var auk kjarnaspurninga spurt um frammistöðusamtöl, sem fóru af stað hjá TM í mars 2015. Þessi umferð frammistöðusamtala virðist hafa tekist vel en 80% starfsmanna voru frekar ánægðir eða mjög ánægðir með samtölin og 76% starfsmanna töldu að samtölin hefðu haft frekar jákvæð eða mjög jákvæð áhrif á frammistöðu þeirra í starfi.

Undirbúningur vegna vinnustaðargreiningar 2017 er hafinn og ráðgert að leggja nýja greiningu fyrir starfsfólk núna í mars.

Jafnréttismál hjá TM

TM hefur verið með jafnlaunavottun VR frá árinu 2014. Til að halda vottuninni hefur félagið farið í gegnum úttektir tvisvar á ári og árlegar launagreiningar, en BSI á Íslandi hefur annast úttektirnar. Til að halda jafnlaunavottun VR verður óútskýrður kynbundinn launamunur innan félagsins að mælast undir 5%. Í febrúar 2016 mældist óútskýrður kynbundinn launamunur 3,9% hjá TM.

Nú hefur VR hætt að leggja nafn sitt við jafnlaunavottunina og hafa íslenskir úttektaraðilar, sem sótt hafa tilskilin námskeið, öðlast leyfi til að votta jafnlaunakerfi fyrirtækja. Stefnt er að fyrstu slíku jafnlaunaúttektinni hjá TM í mars 2017.

TM vill gera betur í jafnréttismálum enda mikilvægt að vera vinnustaður sem laðar til sín besta starsfólkið af báðum kynjum; en þannig styrkjum við stöðu okkar til framtíðar.

Í þeim tilgangi stendur nú yfir verkefni sem ætlað er að styrkja stöðu jafnréttismála hjá TM enn frekar. Í febrúar hófst greining á stöðu jafnréttismála innan TM og út frá þeirri greiningu er ráðgert að setja fram nýja jafnréttisstefnu TM, ásamt aðgerðaáætlun í jafnréttismálum. Verkefnið nær einnig til innleiðingar jafnréttisstefnunnar og framkvæmdar þeirra verkefna sem ákveðið verður að fara fyrst í. Starfsmenn TM eiga aðkomu að verkefninu auk utanaðkomandi ráðgjafa sem félagið hefur fengið til verksins og verður áhugavert að fylgjast með hvernig því vindur fram.