Ávöxtun fjárfestingaeigna

Fjárfestingatekjur námu 3.178 m.kr. á árinu 2016 samanborið við 4.061 m.kr. á árinu 2015 og lækkuðu því um 22% á milli ára. Þrátt fyrir lækkun í fjárfestingatekjum á milli ára var ávöxtunin engu að síður mjög góð. Þannig nam ávöxtun fjárfestinga 13,0% en til samanburðar hækkaði markaðsvísitala Gamma um 4,3% á árinu. 

Það sem skýrir góða afkomu á árinu er fyrst og fremst góð ávöxtun óskráðra hlutabréfa og fasteignasjóða. Þannig skiluðu óskráð hlutabréf 29,2% ávöxtun á árinu og fasteignasjóðir hækkuðu um 70,8% en í báðum eignaflokkum voru eignir sem hækkuðu um meira en 100% á árinu. Þá náðist einnig góður árangur í ávöxtun skráðra hlutabréfa og ríkisskuldabréfa en hún var í báðum tilfellum talsvert umfram viðmið. Íslenska krónan hélt áfram að styrkjast á árinu sem hafði 314 m.kr. neikvæð áhrif á fjárfestingatekjur ársins en TM dró úr gjaldeyrisáhættu sinni á seinni helmingi ársins.

Í árslok 2016 voru fjáreignir þannig samsettar að handbært fé, skuldabréf og útlán til viðskiptavina námu 13.827 m.kr. sem er 52% af heildarfjáreignum. Hlutabréf og sjóðir eru 8.256 m.kr. (31% af fjáreignum) og aðrar fjáreignir 4.449 m.kr. (17% af fjáreignum). Á árinu jók TM verulega við eign sína í ríkisskuldabréfum en í árslok nam hún 3.847 m.kr. sem jafngildir 14% af fjáreignum félagsins. Þá jókst eign TM í hlutabréfum og sjóðum um 660 m.kr. en það skýrist eingöngu af 1.403 m.kr. jákvæðri afkomu af eignaflokknum og því var TM nettó seljandi að hlutabréfum og sjóðum á árinu.

Í árslok 2016 var RIKB 20 stærsta einstaka eign félagsins en hún nam 2.455 m.kr. Næst stærstu eignirnar voru SF V slhf. (1.117 m.kr.), Kvitholmen AS (858 m.kr.), Fjarskipti hf. (798 m.kr.) og RIKB 22 (788 m.kr.). Fimm stærstu fjáreignirnar námu samtals 6.016 m.kr. sem jafngildir 23% af fjáreignum félagsins. Tíu stærstu fjáreignirnar námu samtals 9.320 m.kr. sem jafngildir 35% af fjáreignum félagsins.

Fjáreignir (m.kr.)

 

Fjáreignir