Starfskjaranefnd

Starfskjaranefnd er önnur tveggja undirnefnda stjórnar TM en stjórn skal eigi síðar en mánuði eftir aðalfund félagsins kjósa þrjá menn til setu í nefndinni og skulu þeir valdir með hliðsjón af reynslu og þekkingu á viðmiðum og venjum við ákvörðun starfskjara stjórnenda og þýðingu þeirra fyrir félagið. Þá skal meirihluti nefndarmanna vera óháður félaginu og daglegum stjórnendum þess. 

Skýrsla starfskjaranefndar TM 2016–2017

Nefndarmenn

Í starfskjaranefnd sátu Kristín Friðgeirsdóttir, formaður, Ragnheiður Elfa Þorsteinsdóttir og Þórdís Jóna Sigurðardóttir.

Fjöldi funda

Starfskjaranefnd TM hélt fjóra fundi á tímabilinu frá apríl 2016 til febrúar 2017.

Helstu verkefni starfskjaranefndar

 1. Framkvæmd starfskjarastefnu – eftirlit og eftirfylgni
 2. Þróun launa, hlunninda og annarra starfskjara  
 3. Útfærsla á kaupaukakerfi
 4. Launakjör forstjóra 
 5. Stjórnarlaun
 6. Starfskjaramál, jafnlaunavottun og jafnréttisstefna
 7. Mat nefndar á eigin störfum
 8. Tillögur til stjórnar TM

Framkvæmd starfskjarastefnu

Í upphafi tímabilsins var lögð upp starfsáætlun sem nefndin vann eftir. Hlutverk nefndarinnar er að móta og fylgja eftir starfskjarastefnu sem og fylgja eftir þróun mannauðsmála hjá TM. Nánar er getið um hlutverk nefndarinnar í starfsreglum hennar. Nefndin kallar eftir greiningum sem og niðurstöðum mælinga ásamt upplýsingum um starfshætti og ferla við ákvörðun og eftirfylgni.

Þróun launa, hlunninda og annarra starfskjara

Á starfsárinu hafa verið gerðar umfangsmiklar launagreiningar innan TM. Þær miða að samanburði á þróun launa á milli sviða innan TM sem og kynja. Þá er einnig skoðuð þróun launa hjá TM miðað við launavísitölu, kjarasamninga VR og SA og einnig samanburður við þróun launa hjá fjármála- og tryggingafélögum. Laun hjá TM eru töluvert undir þróun launavísitölu en örlítið hærri en kjarasamningar VR og SA, sjá mynd 1.

 

Starfskjaranefnd-mynd1

* Launakeyrsla september ár hvert; laun forstjóra og framkvæmdastjóra undanskilin
** Lágmarkshækkun samkvæmt samningi
*** Frá og með 3. ársfjórðungi fyrra árs til og með 2. ársfjórðungs næsta árs
**** Meðaltal ársins. Meðaltal ársins 2016 er út frá tölum fyrir mánuðina janúar – október 2016

Útfærsla á kaupaukakerfi

Hjá TM eru breytileg laun hjá 6 einstaklingum (forstjóri, 3 framkvæmdastjórar, 1 forstöðumaður, 1 starfsmaður) sem fylgja kaupaukakerfi TM. Breytileg laun eru tengd við fyrir fram ákveðin og mælanleg árangursviðmið sem endurspegla raunverulegan vöxt félagsins og fjárhagslegan ávinning til lengri tíma fyrir félagið og hluthafa þess.

Þeir árangursmælikvarðar sem kaupaukar byggja á eru bæði huglægir og hlutlægir og er heildarniðurstaðan notuð til að ákvarða kaupaukann. Hlutlægu þættirnir ráða 80% og huglægu 20%. Enginn kaupauki er greiddur ef arðsemi eigin fjár er undir 15% (sem er einn af lykilmælikvörðum félagsins). Aðrir mælikvarðar miðast við mismunandi áherslur á hverju sviði.

Þegar ársreikningur liggur fyrir er farið yfir matið með hverjum og einum einstaklingi þar sem rökstuðningur fyrir kaupaukagreiðslunni er útskýrður. Skrifað er undir yfirlýsingu þessu tengdu þar sem einnig kemur fram hversu mikið af kaupaukanum frestast.

Þess ber að geta að innri endurskoðun framkvæmir úttekt á kaupaukakerfinu.

Niðurstaða ársins er að kaupaukar eru á bilinu 10–25% af árslaunum. Samtals reiknaður kaupauki nemur þá 26,4 m.kr. (án launatengdra gjalda) þar af frestast greiðslur í 3 ár fyrir samtals 9 m.kr.

Launakjör forstjóra

Eins og fram kemur hér að ofan þá fylgja breytileg laun forstjóra kaupaukakerfi TM og byggja á lykilárangursmælikvörðum sem eru endurskoðaðir af starfskjaranefnd og stjórn ár hvert.  Að sama skapi eru árangursmælikvarðarnir bæði hlutlægir og huglægir. Hlutlægu þættirnir ráða 80% og huglægu 20%. Mælikvarðarnir endurspegla markmið félagsins ár hvert og taka mið af stefnumarkandi áherslum TM.

Það er mat stjórnar TM að fyrir árið 2016 hafi forstjóri náð þeim árangri sem stefnt var að. 

Stjórnarlaun

Samkvæmt starfskjarastefnu TM þá endurspegla laun stjórnarmanna þá ábyrgð, sérþekkingu, reynslu og þann tíma sem verja þarf í stjórnarstörf. Þar kemur skýrt fram að stjórnarmenn njóti ekki hlutabréfa, kaup- og söluréttar, forkaupsréttar og annars konar greiðslna sem tengdar eru hlutabréfum í félaginu eða þróun verðs á hlutabréfum í félaginu.

Starfskjaranefnd leggur til ramma fyrir ákvörðun stjórnar um stjórnarlaun. Ákvörðun um stjórnarlaun skulu miðast við laun stjórnarmanna í öðrum sambærilegum skráðum félögum, hækkun á almennri launavísitölu, sem og árangri félagsins.

Starfskjaramál, jafnréttismál og jafnlaunavottun

Verklag við launaákvarðanir stjórnenda TM var kynnt fyrir nefndinni. Annars vegar er stuðst við innri launagreiningar og hins vegar ytri launagreiningar. Horft er til þess að útrýma óútskýrðum kynjabundnum launamun. Úttekt á launum í TM sýnir að óútskýrði munurinn er um 3,9% og hefur farið minnkandi. Unnið hefur verið markvisst að því að efla enn frekar innri launagreiningar til að auðvelda stjórnendum að eyða þessum mun. 

Launagreiningar hjá TM eru unnar til að skýra uppbyggingu launa og að stjórnendur hafi skýr viðmið og verklag við launaákvarðanir og/eða breytingar. Um er að ræða bæði innri launagreiningar sem og ytri greiningar: 

Innri launagreiningar

 • Þróun meðallauna eftir sviðum
 • Meðallaun eftir kyni, starfahópum og sviðum
 • Launabil eftir starfshópum

Ytri launagreiningar

 • Launagreining PwC
 • VR - launakönnun
 • VR - Fyrirtæki ársins – upplifun starfsfólks af launakjörum

Stór hluti af vinnu starfskjaranefndar er að fylgja eftir þessari vinnu og útfærslu. TM hefur byggt upp eigið jafnlaunakerfi en ekki hefur náðst að finna viðeigandi aðila til að votta kerfið en unnið er í því.

Hjá TM er mikill metnaður fyrir að tryggja jöfn tækifæri og kjör. Til að taka næstu skref sem þarf til að loka þeim launamun sem er til staðar í dag sem og gefa báðum kynjum sama vægi var tekin ákvörðun um að fá ráðgjafa til að vinna verkefni í frekari innleiðingu jafnréttis skv. skýringarmynd hér að neðan.  Gert er ráð fyrir að því muni ljúka um mitt ár 2017.

Innleiðing jafnréttis – 4 fasa áætlun

Innleiding-jafnrettis-02

Þróun starfsánægju 

Þróun starfsánægju hækkaði samfellt hjá TM frá árinu 2006 til ársins 2012. Starfsánægja árið 2015 lækkaði hins vegar eða í 4,03 en hafði verið 4,27 árið 2012. Í febrúar 2016 var gerð ný könnun á vegum Gallup og var starfsánægjan þá komin í 4,35. Þetta er mjög ánægjuleg þróun sem endurspeglar þær aðgerðir sem farið var í. Ný könnun er á dagskrá innan skamms.

Starfskjarastefna 

Nefndin fór yfir starfskjarastefnu ásamt forstöðumanni lögfræðiþjónustu og lagði nefndin til við stjórn að starfskjarastefnan yrði óbreytt.

Mat á eigin störfum

Nefndin fór yfir þau viðmið sem starfskjaranefnd starfar eftir, þ.e., Leiðbeiningar um góða stjórnarhætti, starfsreglur starfskjaranefndar, starfskjarastefnan sem og starfsáætlun. Voru nefndarmenn sammála um að nefndin hefði sinnt þeim atriðum sem þar koma fram og ætlast er til af nefndinni.  

Það ber að nefna að nefndin hefur beðið um stafestingu á að laun og önnur starfskjör séu í samræmi stefnu félagsins sem og reglur FME.

Tillögur starfskjaranefndar til stjórnar

Starfskjaranefnd hefur átt stefnumótunarumræðu um starfskjaramál við forstjóra og forstöðumann mannauðsmála og niðurstaðan var sú að TM er framúrskarandi vinnustaður og mikilvægt er að áfram verði unnið í að efla starfsfólk TM og bjóða upp á starfsumhverfi sem er með því besta. Samkeppnishæfni TM mun ráðast að því að vera áfram framúrskarandi vinnustaður og mikilvægt að áfram sé unnið í samvinnu við stjórnendur og starfsfólk að skapa nútímalegt umhverfi sem er hvetjandi og afkastaaukandi.

Regluleg stjórnendaþjálfun er mikilvæg og lagt er til að áhersla verði lögð á áframhaldandi þjálfun meðal stjórnenda. 

Verkefnið um innleiðingu jafnréttis er mikilvægur liður í að auka skilning á jafnréttismálum og til að ákvarða næstu skref á þessu sviði. Spár deilda og sviða um mannaflaþarfir gefa til kynna að á næstu árum verði möguleg tækifæri til að jafna hlutfall kynja í deildum fyrirtækisins og stjórnendastöðum og stuðla almennt að meiri fjölbreytileika. Mikilvægt er að nýta þessi tækifæri á skipulagðan hátt.