Rekstrarniðurstöður 2016

  • Heildarhagnaður tímabilsins var 2.597 m.kr. og hagnaður á hlut var 3,80 kr. (2015: 2.827 m.kr. og 3,84 kr.)
  • Hagnaður fyrir skatta var 2.953 m.kr. (2015: 3.167 m.kr.)
  •  Framlegð af vátryggingastarfsemi var jákvæð um 420 m.kr. (2015: neikvæð um 416 m.kr.)
  • Fjárfestingatekjur voru 3.178 m.kr. (2015: 4.061 m.kr.) og ávöxtun fjárfestingareigna var 13,0% (2015: 16,5%)
  • Samsett hlutfall var 97,0% (2015: 103,3%)
  • Bókfærð iðgjöld jukust um 8,3% á milli ára
  • Eigin iðgjöld jukust um 11,3% á milli ára
  • Eigin tjón hækkuðu um 3,9% á milli ára
  • Rekstrarkostnaður hækkaði um 6,6% á milli ára
  • Arðsemi eigin fjár var 22,4% (2015: 24,2%) 

Hagnaður eftir skatta nam 2,6 ma.kr. og var góð afkoma bæði af vátrygginga- og fjárfestingastarfssemi félagsins. Arðsemi eigin fjár var 22,4% en markmið félagsins er að hún sé hærri en 15%. Tillaga stjórnar fyrir aðalfund er að greiddar verði 2,2 kr. í arð á hvern hlut, eða 1,5 ma.kr. Einnig verður lagt til að á árinu 2017 verði keypt eigin bréf fyrir allt að 1 ma.kr.

Rekstur

Afkoma ársins í vátryggingarekstri var í samræmi við áætlun félagsins sem gerði ráð fyrir 97% samsettu hlutfalli. Bæði tjónshlutfall og kostnaðarhlutfall lækkuðu á milli ára en á seinni hluta ársins 2015 var m.a. gripið til skipulagsbreytinga í því skyni að auka enn á fagleg vinnubrögð í áhættuverðlagningu hjá félaginu. Afrakstur þess og annarra aðgerða er viðsnúningur í framlegð af vátryggingastarfsemi upp á 836 m.kr. Tjónshlutfallið lækkaði úr 81,7% í 76,2% og kostnaðarhlutfallið úr 21,6% í 20,8% en langtímamarkmið TM er að ná því undir 20%. Rekstrarkostnaður hækkar í heild um 6,6% á milli ára og munar mestu um hækkun launakostnaðar vegna samningsbundinna launahækkana. Heildartekjur félagsins námu 17.279 m.kr. árið 2016 sem er 3% hækkun frá árinu 2015.

Eignatryggingar skiluðu þokkalegri afkomu þrátt fyrir stórtjón í bruna á Snæfellsnesi. Mikill viðsnúningur var í afkomu sjó- og farmtrygginga en viðskiptum var hætt á árinu við einn af erlendum miðlurum TM. Afkoma ökutækjatrygginga batnaði töluvert á milli ára og náðist að reka þær með jákvæðri framlegð. Þetta er ánægjulegt þegar haft er í huga að umferðarþungi hefur aukist töluvert á undanförnum misserum. Afkoma ábyrgðartrygginga var með ágætum en slysatryggingar versnuðu hins vegar mikið á milli ára vegna töluverðar aukningar í tilkynntum slysum á síðasta fjórðungi ársins. Líftryggingar voru reknar með hagnaði líkt og á undanförnum árum en þær vega hins vegar ekki þungt í heildariðgjöldum.

Kostnaður vegna endurtrygginga hefur farið stöðugt lækkandi á undanförnum árum og lækkar endurtryggingahlutfallið úr 5,3% af iðgjöldum í 5,1%.

Fjárfestingatekjur TM námu 3.178 m.kr. árið 2016 sem er 22% lækkun á milli ára en mikil hækkun varð á gengi skráðra hlutabréfa á árinu 2015. Afkoma af hlutabréfaeign var mjög góð á árinu og nam tæpum helmingi af fjárfestingatekjunum. Ávöxtun eignasafns TM var með miklum ágætum eða 13,0% en markaðsvísitala Gamma hækkaði einungis um 4,3% á árinu.

Fjármagnsgjöld hækka töluvert á milli ára bæði vegna víkjandi skuldabréfaútgáfu félagsins á miðju ári 2015 auk þess sem gjaldfærð voru uppgreiðslugjöld íbúðalána en félagið seldi stóran hluta íbúðaeignar sinnar á árinu.

Heildargjöld félagsins námu 14.326 kr. árið 2016 sem er 5,5% hækkun frá árinu 2015. Tekjuskattur nam 356 m.kr. árið 2016 og er virkt skatthlutfall 12%. Hagnaður félagsins eftir skatta nam 2.597 m.kr. sem er 8% lækkun frá fyrra ári.

Efnahagur

Efnahagur TM hefur verið mjög traustur um árabil með háu eiginfjár- og gjaldþolshlutfalli. Eiginfjárhlutfall var 38,6% í lok árs 2016 og gjaldþolshlutfallið 1,5 sem er í samræmi við áhættuvilja stjórnar félagsins.

Eignir

Í efnahagsreikningi TM er fjárfestingareignum skipt í fjárfestingafasteignir, bundin innlán, útlán, verðbréf, og handbært fé. Í árslok 2016 nam fjárfestingasafn TM 26.533 m.kr. en það vegur um 82% af heildareignum félagsins sem námu 32.350 m.kr.

Fjárfestingafasteignir lækka um tæpar 600 m.kr. á milli ára vegna sölu á íbúðum. Eign TM í verðbréfum hækkaði hins vegar um 9% og nam 23.949 m.kr. í árslok 2016. Handbært fé og bundin innlán námu 903 m.kr. í árslok 2016 sem jafngildir um 3% af fjárfestingasafninu. Útlán félagsins hækkuðu aðeins á árinu en megnið af þeim eru bílalán til viðskiptavina. Rekstrarfjármunir félagsins námu 386 m.kr. í árslok 2016. Húsnæðið sem TM notar í starfsemi sinni er að mestu leyti tekið að leigu, þar með taldar höfuðstöðvar félagsins að Síðumúla 24. Óefnislegar eignir námu 250 m.kr. í árslok 2016 og voru annars vegar viðskiptavild að fjárhæð 100 m.kr. vegna kaupa á minnihluta í Líftryggingamiðstöðinni hf. og hins vegar eignfærður hugbúnaður. Hlutur endurtryggjenda í vátryggingaskuld er færður sem endurtryggingaeignir en þær námu 1.050 m.kr. í árslok 2016 og hækka töluvert á milli ára vegna hluta endurtryggjenda í brunatjóni. Kröfur á endurtryggjendur vegna uppgerðra mála eru hins vegar færðar með viðskiptakröfum. Viðskiptakröfur námu 4.037 m.kr. í árslok 2016 og lækka í krónutölu á milli ára. Hlutfall viðskiptakrafna í árslok af iðgjöldum ársins er 27% en var 31% árið á undan.

Eigið fé og skuldir

Eigið fé nam 12.479 m.kr. í árslok 2016 og er eiginfjárhlutfall 38,6% en nýr bundinn eiginfjárliður nemur 2.239 m.kr og er hann í samræmi við ný ársreikningalög. Hann inniheldur m.a. óinnleystar gangvirðisbreytingar verðbréfa og hlutdeild í hagnaði dótturfélaga að frádregnum arðgreiðslum. Áhrif breytinga sem gerðar voru á ársreikningalögum eru enn óljósar varðandi ýmis túlkunaratriði en munu væntanlega skýrast þegar líður á árið. Mögulega geta orðið tilfærslur á milli liða í efnahagsreikningi af þessum sökum.

Í heild nam vátryggingaskuld TM 16.197 m.kr. í árslok 2016 og þar af var tjónaskuld 12.048 m.kr. eða 74%. Skuldir vegna fjárfestingafasteigna námu 77 m.kr. í árslok 2016 og lækkuðu þær um 86% á milli ára. Aðrar vaxtaberandi skuldir er víkjandi lán félagsins sem er rúmir 2 milljarðar kr.

Viðskiptaskuldir og aðrar skuldir hækka á milli ára en auk viðskiptaskulda er um að ræða skammtímaskuldir, áfallin gjöld og ógreiddan tekjuskatt.