Ávarp stjórnarformanns
Gangi áætlanir eftir hafa hluthafar TM fengið til baka tvo þriðju kaupverðsins við Kauphallarskráningu í formi arðgreiðslna. Umræður um arð 2016 rötuðu á villigötur. Vanþekking er á mikilvægi fjárfesta. Enn þrengja stjórnvöld að starfsemi tryggingafélaga. Rætt er við Örvar Kærnested stjórnarformann.
Örvar Kærnested
stjórnarformaður TM
„Við getum verið stolt af rekstrarárangrinum árið 2016. Það er krefjandi að reka tryggingafélag á þenslutímum og hlutabréfamarkaðurinn seig á árinu. Engu að síður varð góður afgangur af starfsemi TM og framtíðin er björt.“
Stjórn leggur til að 1,5 milljarðar verði greiddir út í arð. Var sú tala auðveldlega fundin?
„Já. Hún byggir einfaldlega á samþykktri og opinberri arðgreiðslustefnu stjórnar sem kveður á um að það sem verður umfram í rekstrinum, að teknu tilliti til gjaldþolskröfu og áhættuvilja, skuli greitt út til hluthafa. Þetta er gegnsætt fyrirkomulag og hluthafar geta séð á ársfjórðungsuppgjörum hvers þeir mega vænta. Við höfum fylgt þessari stefnu í þrjú ár og hún hefur gefist vel.“
Hvað hefur félagið greitt út mikinn arð síðustu ár?
„Verði tillaga stjórnar samþykkt á aðalfundi nemur fjárhæðin frá 2013 samtals rúmum tíu milljörðum króna. Það ár var félagið skráð í Kauphöll og fékk nýja eigendur. Þeir sem þá keyptu og eiga enn sinn hlut hafa þá fengið tvo þriðju kaupverðsins til baka í formi arðs. Um leið hefur markaðsvirði félagsins aukist úr 15 milljörðum í rúmlega 20. Ávöxtunin hefur því verið góð en það er einmitt það verkefni sem hluthafar fela stjórn: Að ávaxta féð.“
Þið óttist ekki umræðu á borð við þá sem fram fór í fyrra um arðgreiðslur?
„Nei, við gerum það ekki. Umræðan fór úr böndunum og við fylgdumst með en héldum okkur til hlés. Það er hins vegar einkennilegt ef arður af áhættufjárfestingu er tabú. Einhver þarf að taka áhættuna og hann uppsker í samræmi við gengi fyrirtækisins. Það fæst enginn til að leggja fyrirtækjum til fjármagn ef ávöxtun þess er dauðasynd. Á þessum 330 þúsund manna markaði sem Ísland er starfa fjögur stór og stöndug vátryggingafélög og á milli þeirra ríkir hörð samkeppni. Við erum með skýr markmið í rekstrinum, verðlagningin er gegnsæ og arðgreiðslustefnan ljós og við höldum keik okkar striki.“
Hvernig meturðu efnahagsástandið í landinu?
„Margt hefur breyst til hins betra og á skömmum tíma hafa áhyggjur af veikri stöðu krónunnar vikið fyrir áhyggjum af versnandi samkeppnishæfni útflutningsgreina vegna styrkingu gjaldmiðilsins. Slakinn sem myndaðist í hagkerfinu er horfinn og áfram er útlit fyrir að gjaldeyrisinnstreymið verði sterkt. Stjórnvöld hafa loksins stigið alvöruskref í afnámi gjaldeyrishafta sem er mikið fagnaðarefni. Takmörkun fjármagnsflutninga hefur haft þau áhrif að sjóðir og fyrirtæki hafa ekki getað stýrt eignasöfnum á sem hagkvæmastan hátt en nú getum við loksins farið að huga að því dreifa áhættu félagsins með fjárfestingum í útlöndum.“
Breyttust önnur skilyrði félagsins á árinu?
„Þau þrengdust fremur en hitt. Eftirlitsgjald Fjármálaeftirlitsins á TM hækkaði um tæp 50% á árinu eftir stöðugar hækkanir árin á undan. Tryggingafélögin greiða nú samtals 260 milljónir króna á ári til FME. Það þýðir í raun að bara TM greiðir laun fjögurra til fimm starfsmanna FME á ári. Við skulum þá ætla að þeir sinni eingöngu því að fylgjast með TM allan daginn alla daga ársins. En auðvitað er það ekki þannig. Og ef við setjum þetta í samhengi við félagið þá eru þetta jafnmargir starfsmenn og starfa hér á lögfræðisviði, við fjárfestingu og áhættustýringu. Þetta stenst ekki skoðun en engu að síður er viðbúið að þetta sé komið til að vera eins og önnur gjöld sem stjórnvöld leggja á atvinnulífið, jafnvel þótt þau eigi að heita tímabundin. Við sjáum það á þessum sérstöku sköttum og gjöldum sem lögð voru á banka og tryggingafélög eftir hrunið til að vinna úr eftirmálum þess. Það er að verða kominn áratugur en enn eru þau gjöld til staðar og það þrátt fyrir að bú bankanna hafi þegar greitt á annað hundrað milljarða í ríkissjóð í formi stöðugleikaframlaga. Þessar greinar hafa því greitt dável í aukagjöld sem auðvitað hefur ekki gert annað en að skerða samkeppnishæfni þeirra á alla vegu.“
Nú átti félagið stórafmæli á liðnu ári. Hvernig finnst þér það standa á þessum tímamótum?
„TM varð 60 ára á árinu og að mínu mati ber félagið aldurinn vel. Fjárhagsstaðan er sterk og félagið er vel rekið á hvaða mælikvarða sem litið er til, hvort heldur horft sé til síðasta árs eða meðaltals margra ára aftur í tímann. Það er ekki sjálfgefið að slíkur árangur náist og starfsmenn eiga þakkir og hrós skilið fyrir vel unnin störf á undanförnum árum.“