Ávarp forstjóra

 Hagnaður TM á árinu 2016 var 2,6 milljarðar króna. Viðsnúningur varð í afkomu vátryggingarekstursins og áfram varð góð ávöxtun af fjárfestingum. TM er leiðandi fyrirtæki í miðlun upplýsinga um fjárhagsáætlanir og rekstrarviðmið. Rætt er við Sigurð Viðarsson forstjóra.  

Sigurdur Viðarsson forstjóri TM
Sigurður Viðarsson
forstjóri TM

„Niðurstaða ársins 2016 er afskaplega ánægjuleg og það er sérstakt ánægjuefni út af fyrir sig að afkoman hafi verið jafn góð og raun ber vitni á 60 ára afmælisári félagsins. Afkoma af bæði tryggingarekstrinum og fjárfestingunum var jákvæð og þar ber sérstaklega að taka fram að mikill viðsnúningur varð milli ára í afkomu vátrygginganna. Í stað 416 milljón króna neikvæðrar framlegðar af vátryggingastarfsemi 2015 varð 420 milljón króna jákvæð framlegð í fyrra. Samsett hlutfall fór á ný undir 100% og var 97% og arðsemin var 22,4% þannig að enn eitt árið í röð treystum við undirstöður félagsins og skilum hluthöfum góðum arði.“

Árið var erfitt á íslenskum hlutabréfamarkaði. Hvernig þróuðust fjárfestingar TM?

„Okkur tókst að ávaxta fjárfestingar um 13% sem er einstaklega góður árangur í ljósi þess að íslenska hlutabréfavísitalan lækkaði um 6,9% í fyrra. Þar munar mest um 71% hækkun fasteignasjóða og 29% ávöxtun á óskráðum hlutabréfum.“

Hvernig tókst að snúa við tapi af vátryggingastarfseminni í hagnað?

„Líkt og við upplýstum á aðalfundi 2016 réðumst við breytingar á skipulagi haustið 2015. Sett var á fót sérstakt svið sem greinir og metur áhættu með ítarlegri hætti en áður og ákveður verðlagningu þjónustunnar út frá niðurstöðunni. Útkoman er sú að iðgjöld eru í betra samræmi við áhættuna en fyrr og afkoman í takt við það.

Hvernig tóku viðskiptavinir þessari breytingu?

„Flestir tóku henni vel og skildu röksemdirnar að baki. Athugum að í þessu fólst ekki verðhækkun yfir línuna. Þetta er sanngjarnara í alla staði enda eðlilegt að stefna að því að hver og einn vátryggingaflokkur sé rekinn með viðunandi arðsemi í stað þess að afgangur í einum flokki fari í að greiða upp halla í öðrum.“

Var jákvæð afkoma í öllum tryggingaflokkum?

„Nei, svo gott var það ekki. Árið var mjög gott í hefðbundnum ökutækjatryggingum og raunar það besta í langan tíma. Afkoman af eignatryggingum var þokkaleg þrátt fyrir tvö stór tjón á árinu en síðri í slysatryggingum og kaskótryggingum. Við erum enn að þróa nýja skipulagið og vinnum sérstaklega í slysatryggingum og kaskó á árinu.“

Hvernig þróaðist erlend starfsemi á árinu?

„Við tókum ákvörðun um að draga hana saman. Afkoman af erlendum sjótryggingum árið 2015 var það léleg að hún hafði veruleg áhrif á afkomu félagsins. Iðgjöldin minnkuðu auðvitað að sama skapi en þetta var rétt ákvörðun. Stjórnendur félagsins eru ekki undir þrýstingi frá stjórn eða starfa eftir mælikvörðum sem knýja á um sérstakan vöxt, keppikeflið er að halda samsettu hlutfalli, kostnaði og arðsemi við tiltekin mörk.“

Breytingar urðu á upplýsingamiðlun á árinu. Hverjar helstar?

„TM hefur verið leiðandi á því sviði og steig enn eitt skrefið á árinu þegar við hófum að birta áætlanir fyrir einstaka ársfjórðunga heilt ár fram í tímann. Þannig geta hluthafar séð hvernig stjórnendur félagsins meta horfurnar á hverjum tíma. Í ljósi þess að yfirlýsingar um fjármagnsskipan og arðgreiðslustefnu eru opinberar geta hluthafar meira að segja séð hvort og þá hve háar arðgreiðslur koma til með að vera. Það er okkur sérstakt kappsmál að vera í fararbroddi í upplýsingagjöf enda erum við bæði skráð í Kauphöll og um leið fjárfestir á markaðnum. Við viljum því fara fram með góðu fordæmi í þeirri von að aðrir fylgi á eftir.“

Hverjar eru horfurnar fyrir 2017?

„Við horfum björtum augum til ársins og gerum ráð fyrir að hagnaðurinn nemi 2,8 milljörðum. Enn er spáð talsverðum hagvexti sem er áskorun fyrir okkur því uppgangi og framkvæmdum fylgja aukin tjón. Við teljum þó að okkur hafi tekist að haga málum þannig að félagið sé komið fram fyrir sveifluna, ef svo má segja. En varðandi ytri skilyrði þá má segja að stjórnvöld hafi ekki staðið sig að öllu leyti. Sem dæmi horfum við upp á stóraukna umferð um vegakerfið en afskaplega litla uppbyggingu og viðhald. Við rekjum mikla aukningu í framrúðutjónum beint til slæmra vega. Það er slæmt til þess að hugsa að gríðarlegar tekjur þjóðarbúsins af erlendum ferðamönnum skili sér ekki í almennilegri uppbyggingu innviða.“